x

Altaristafla í Bjarnarhafnarkirkju

ALTARISTAFLAN Í BJARNARHAFNARKIRKJU.

Í Bjarnarhafnarkirkju í Helgafellssveit á Snæfellsnesi, hangir ákaflega falleg gömul altaristafla. Myndefni altaristöflunnar, er þegar Kristur birtist lærisveinum sínum í Emmaus.  Löngum hefur verið talið að altaristafla þessi sé sú hin sama og getið er um í máldaga þeim er Brynjólfur Sveinsson, biskup lét gera, skömmu eftir að hann tók við embætti árið 1639, enda mun ekki getið um aðrar og nýrri altaristöflur í máldögum Bjarnarhafnar kirkju. Sagan segir að altaristaflan sem getið er um í máldaga Brynjólfs biskups, hafi verið gefinn kirkjunni af Hollenskum sæförum, að launum fyrir giftusama björgun úr sjávarháska. Hafa sæfarar þessir væntanlega verið hvalveiði menn eða kaupmenn, því um þær mundir sem fyrrgreind altaristaflan er færð kirkjunni verður fyrst vart við Hollenska sæfara á Breiðafirði og víðar við Íslands strendur.

peregrinos_emaus_rembrandt

Kristur í Emmaus. Rembrant.

Fyrir margt löngu síðan, kannski aldarfjórðungi, um það leiti sem að ferðamennska var að byrja að ryðja sér til rúms á Breiða fjarðarsvæðinum, barst mér til eyrna frá rútubílstjóra sem hafði verið með ferðamannahóp í Bjarnarhöfn, að leiðsögumaður hópsins hefði talið að altaristaflan gæti jafnvel verið eftir Rembrant. Voru rökin þau helst að Rembrant hefði verið uppi á þessum tíma, og að hann hafi málað nokkrar Emmaus myndir um dagana.  Ég fór þá á stúfana og og fletti upp á Rembrant og Emmaus myndum hans í listaverkabókum og komst mjög fljótlega að þeirri niðurstöðu að Emmaus myndir Rembrants væru svo ólíkar altaristöflunni í Bjarnarhöfn að allri gerð að afar ólíklegt væri að þessi verk væru eftir einn og sama manninn. Eftir að hafa legið yfir þessu í nokkurn tíma, komst ég að þeirri niðurstöðu, að líklegast væri Bjarnarhafnartaflan danskt 19.aldar verk, eins og finna má í mörgum kirkjum á Íslandi.

Rembrant Emmaus 1648

Kristur í Emmaus, Rembrant 1648

Það var tvennt sem þvældist mest fyrir mér og ég fann hvergi í öðrum sambærilegum Hollenskum 17.aldar málverkum. Hið fyrra er yfirbragð lærisveinann, en þeir líkjast meira rússneskum rétttrúnaðarmunkum, heldur en þeim lærisveina týpum sem prýða Hollensk gullaldarmálverk. Hitt sem var að trufla mig og finnst heldur hvergi á málverkum þessa tíma, er hin hvíta skikkja sem Kristur hefur á herðum sér á Bjarnarhafnartöflunni. Var leitinni því fram haldið og flett upp á verkum eftir Anker Lund og fleiri danska málara sem eiga verk í Íslenskum kirkjum. Þó varð ég að slá þann varnagla, að á meðan ekki kæmu fram upplýsingar um það að Bjarnarhafnarkirkja, hefði eignast aðra altaristöflu, síðar en þá sem að hinir Hollensku sjófarendur gáfu, yrði að að halda leitinni áfram meðal Hollenskra listamálara.

Eins og áður greinir líkist Bjarnarhafnartaflan lítt Emmaus myndum Rembrants, sem eru í svo nefndum „Chiaroscura“ stíl. Það er að segja, megin árherslan er á flæðið frá ljósi yfir í skugga en minni áhersla á litaflæðið á myndfletinum. Leitin að sambærilegum málverkum, for að mestu fram á internetinu, framan af , en seinna eftir að ég fór að eiga erindi í fjölskyldu heimsóknir til Hollands, fór ég að leita fyrir mér hvort að ég finndi í Hollenskum söfnum, altaristöflur eða önnur málverk, sem hefðu sömu höfundar einkenni og taflan í Bjarnarhöfn. Það verður að segjast eins og er, að það hefur gengið illa og engan vegin að finna í Hollandi verk frá fyrri hluta 17.aldar sem eru afdráttarlaust „lík“ Bjarnarhafnartöflunni.  Málverk sem sýna Krist birtast lærisveinum sínum í Emmaus, voru langt því frá að vera einskorðuð við Rembrant. Um árið reis 1600 Barokkstíllinn upp í myndlistinn, mest upp úr verkum Ítalska málarans Carravaggios. Í stað fágaðs svipbrigðaleysis virðulegra hástéttar manna, fylltust málara strigarnir nú af tilfinningalega af mynduðum andlitum almúgamanna, og breiddist stíll þessi víða, þar á meðal til Hollands. Carravaggio málaði meðal annars, tvær Emmaus myndir, og er það væntanlega ástæða þess, hversu hugleikið þetta viðfangsefni varð málurum þeim er aðhylltust „Carravaggisma“ á næstu áratugum.  Bjarnarhafnartaflan líkist á vissan hátt fyrri Emmaus mynd Carravaggios frá 1602, og beindust því athuganir að svonefndum „Utrect Carravaggistum“, en það var hópur Hollenskra málar sem áttu að sameiginlegt að hafa dvalist í Róm, og kynnst þar verkum Caravaggios.

35emmau Carravaggio

Kristur í Emmaus. Caravaggio (Micaelangelo Mersi) 1602

Á Emmaus mynd Carravaggios er Kristur sýndur í rauðum kirtli og hvíti skikkju yfir, og þar að auki er einn lærisveinninn grænklæddur með svipað hárafar og á Bjarnarhafnartöflunni. Það má því segja að Bjarnarhafnartaflan komist næst því að líkjast Hollenskum gullaldarmálverkum, í verkum „Utrecht Carravagg istanna, en þeir voru skammlífur „kimi“ í Hollenskri málaralist í kringum 1620. Það sem kallað er Utrecht Caravaggismi, er einkonar blanda af Mannerisma og Barokk. Altaristaflan í Bjarnarhöfn, hefur við fyrstu sín mörg einkenni, Mannerisma. Pýramída lagaða myndbyggingu, og svipbrigðalaus, langleit andlit, en spennan í myndinni öll tjáð með handahreyfingum. Síðan er hins vegar tvennt við myndina sem kalla má Carravaggista einkenni.  Hið fyrra er fjarvíddarlaus og áherslulaus bakgrunnur, og hið síðara sú staðreynd að verkið sýnir einvörðungu efri hluta líkamans.  Þetta tvennt síðastnefnda eru skilgreind einkenni á verkum Carravaggistanna í Utrecht.

The_Procuress

The Procuress 1622. Theodor (Dirck) Van Baburen.

Dæmi um Utrect Caravaggisma

Nú hefur komið á daginn að altaristaflan í Bjarnarhöfn er eins og grunur beindist að í upphafi, alls ekki Hollenskt 17.aldar verk, heldur danskt 19.aldar málverk. Fyrir stuttu síðan rakst ég á Inga Hans Jónsson sagnaþul og fróðleiksmola úr Grundarfirði, á förnum vegi.  Við tókum tal saman um sögu grúsk, og rakti ég meðal annars fyrir honum raunir mínar við að hafa upp á upplýsingum um uppruna Bjarnarhafnartöflunnar. Ingi Hans, kvaðst hafa í fórum sínum afrit af bókinni „Saga-steds of Iceland“ (útgefin í 500 eintökum 1899) eftir á W.G Collingwood og Jón Stefánsson þar sem fram kemur að altaristaflan sé „..to memory of departed Hjaltalíns.“ (bls 81) Eftir að Ingi Hans virkjaði sitt tengslanet, komu fljótlega í ljós gögn sem vörpuðu ljósi á málið. Á síðasta ári kom út í Danmörku í ritinu „Kirkehistoriske samlinger“ grein um „Hina Íslensku altaristöflu C.W.Eckersbergs“ eftir þá Knud Bölge Pedersen og „Thor“ Magnússon. Þarna er einmitt komin Bjarnarhafnar altaristaflan og er sögu hennar gerð þar skil.

Eckersberg. 1839 1940 Síðasta kvöldmáltíðin Kirkjan á Friðriksbergi

Síðasta kvöldmáltíðin. C.W.Ekersberg 1839-1840

Sagan hefst þann 19 desember árið 1829, en þann dag sendi amtmaðurinn í vestur-amtinu á Íslandi, Bjarni Thorsteinsson, beiðni til til rentukammersins í Kaupmannahöfn. Í beiðninni var þess farið á leit að útveguð yrði lítil altarismynd og klukka í Bjarnarhafnarkirkju.  Tekið var fram í beiðni þessarri, að með tilliti til loftslagsins á Íslandi, væri heppilegra að altarismyndin, væri máluð á tré, frekar en striga. Þá var einnig lagt til að myndefnið yrði, af upprisunni, af skírn Krist, eða síðustu kvöld máltíðinni, eða þá einhverju öðru af höfuðþemum trúarinnar, valið af málaranum í samræmi við stærð myndarinnar. Beiðni þessa sendi amtmaðurinn að undirlagi þáverandi umsjónarmanns Bjarnarhafnarkirkju Odds Hjaltalín „districts“læknis, sem lengi hafði búið á Snæfellsnesinu, fyrst í Stykkishólmi og síðar í Grundarfirði.

Renntukammerið sendi beiðnina til konunglega hirðbygginga meistarans, sem aftur leitaði eftir tillögum hjá, Eckersberg prófessor við listaakademiuna í Kaupmannahöfn. Eckersberg sem er einn þekktasti málari danskrar listasögu, kom með þá tillögu í júní 1831, að hann málaði altaristöflu, sem sýndi Krist upprisinn ásamt Maríu Magdalenu. Taflan sem átti að vera 105 x 84 sm og máluð á tré, átti að kosta 100 ríkisbankadali.  Var nú tillaga þessi send rentukammerinu, sem í september um haustið, hafnaði erindinu á þeirri forsendu að þetta væri of kostnaðarsamt að teknu tilliti til almenns ástands kirkjunnar.

 Leið nú og beið í 10 mánuði að ekkert hreyfðist í máli þessu, en í september árið 1832, dregur til tíðinda. Þann 19 september 1832 gerir konungur kunnugt, „allrar náðarsamlegast“ að hann veiti leyfi til þess að Bjarnarhafnarkirkja í Snæfellsnessýslu í Íslands vestur-amti, fá bæði altaristöflu og klukku, sem kosta megi 212 ríkisbankadali og 48 skildinga.  Mælti konungur svo fyrir að greiðslan yrði tekin úr hinum Íslenska jarðabókarsjóði, og skuli altaristaflan sendast til til Íslands með fyrsta skipi í vestur-amtið, vorið 1833.  Talið er að konungur hafi fengið veður af, og áhuga á máli þessu frá Eckersberg sjálfum, sem á þessum tíma var að vinna við 8 myndverk er sýna sögu Oldenborgar ættarinnar í Kristjánsborgarhöll, að beiðni konungs.  Einnig hafði Eckersberg málað hið opinbera portret af vor herra danakonungi Friðrik VI og hans fjölskyldu. Það verk hangir í uppi í Rósenborgarhöll. Seint í nóvember 1832 fékk Eckersberg í hendur trétöflu, frá Hornbeck hirðbyggingameistara og hefst handa við nauðsinlega undirvinnu, sem er all mikil, þegar málað er með olíu á tré.  Mánuði síðar, á aðfangadag nánar tiltekið, er Ekersberg að sparta í trétöflu, skv. dagbókum hans, og er það væntanlega Bjarnarhafnartaflan. Laugardaginn 2. janúar 1833, hófst Eckersberg handa við málverkið sjálft. Verkinu var að fullu lokið í byrjum mars, og í endaðann apríl sendir Eckerberg inn reikning til jarðabókarsjóðs, upp á 100 ríkisbankadali, fyrir málun á altaristöflu, sem hann sjáfur nefnir, „Jesus som genkjendes av hans diciple i Emaus. Lucas cap 24“

Eckersberg,_Christoffer_Wilhelm_(självporträtt_1803)

Christoffer Wilhelm Eckersberg 1803. Sjálfsmynd.

Christoffer Wilhelm Eckersberg 1783-1853, var eins og áður greinir einn af merkustu málurum danskarar listasögu. Hann lagði drögin að því tímabili sem kallað hefur verið hin danska gullöld málaralistarinnar, og sjálfur hefur Eckersberg verið nefndur „faðir danskrar málaralistar“. Bjarnarhafnartaflan verður því að teljast afar merkur gripur sem á sér skemmtilega sögu.

Ægir Jóhannsson

Ingi Hans Jónsson

Júní 2015.

Heimildir:

Kirkehistoriske Samlinger: Kaupmannahöfn 2014:

Knud Børge Pedersen og Thor Magnusson:

C.W. Eckersbergs islandske altertavle s. 197

C.W.Eckersberg dagböger BIND1. 1810 – 1837
Udgivet og kommenteret af Villads Villadsen

Nyt Nordisk Forlag Arnold Busck

http://runeberg.org/dbl/4/0410.html

DANSK  BIOGRAFISK LEXIKON,

tillige omfattende  Norge for Tidsrummet 1537-1814.Udgivet af C. F. Bricka.

IV. BIND  Clemens – Eynden. Kjøbenhavn. Gyldendalske Boghandels Forlag (F. Hegel & Søn). Græbes Bogtrykkeri. 1890.